Samkomulag um hitaveitu

Föstudagur, 2. desember 2016

 

Ásahreppur og Veitur hafa náð samkomulagi um uppgjör vegna uppbyggingar, reksturs og gjaldtöku fyrir hitaveitu í Ásahreppi. Aðila hafði greint á um gjaldskrá fyrir heitt vatn í hreppnum allt frá árinu 2011.

Ágreiningurinn snerist um túlkun samnings um yfirtöku Orkuveitu Reykjavíkur á Hitaveitu Rangæinga. Ásahreppur taldi gjaldskrárhækkun OR árið 2011 ekki í samræmi við samninginn og OR, síðar Veitur, töldu að forsendur í samningum um uppbyggingu í sveitarfélaginu hefðu ekki staðist.

Með samkomulaginu munu Veitur lækka gjaldskrá á heitu vatni til notenda í Ásahreppi, annarra en í frístundahúsum, og verður lækkunin afturvirk til 1. febrúar 2011. Gjaldskrárbreytingar síðan þá verða til samræmis við breytingar sem orðið hafa á Hellu og Hvolsvelli. Viðskiptavinir munu fá mismuninn endurgreiddan.

Á móti mun Ásahreppur bæta Veitum tekjumissi vegna uppbyggingar á svokölluðum Krókslegg veitunnar, sem reiknað hafði verið með frá árinu 2007. Bæturnar verða greiddar þar til uppbygging þar er orðin, þó ekki lengur en til ársins 2027. Veitur munu greiða hreppnum útlagðan kostnað vegna matsgerðar og lögfræðiþjónustu.

Starfsfólk Veitna mun setja sig í samband við þá viðskiptavini sem eiga rétt á leiðréttingu fyrir janúarlok.

-NJ-